» Skip to content

Þingvellir á Íslandi

Þingvellir hafa meira sögulegt gildi en nokkur annar staður á Íslandi. Þar var Alþingi stofnað árið 930 og voru þar voru þingfundir haldnir sleitulaust í ríflega 850 ár, allt til ársins 1798.

Alþingi var samkoma allra landsmanna og til eru ýtarlegar ritaðar heimildir um starfsemi þess allt aftur til fyrstu áranna. Samkoman stóð yfir í rúmar tvær vikur ár hvert og voru fundirnir haldnir utanhúss, aðallega á tveimur stöðum, þ.e. Lögbergi og Lögréttu. Þar voru lögin þulin upp og tilkynningar og fyrirskipanir lesnar upphátt. Menn héldu ræður, kynntu hugmyndir sínar og lögðu fram tillögur. Í slæmu veðri fór starfsemin fram í kirkjunni. 

Lögsögumaðurinn hafði aðsetur að Lögbergi og var ábyrgur fyrir því sem þar fór fram, auk þess að leggja á minnið og segja fram lög. Fólk kom til þingsins hvaðanæva á landinu og reisti sér tímabundin hús eða skýli sem kölluðust búðir. Búðirnar voru hlaðnar með steinum og torfi og yfir þær var reyrður ullardúkur. Rústir búðanna má enn sjá á Þingvöllum.

Ekki er vitað nákvæmlega um staðsetningu Lögbergs og Lögréttu. Ef marka má rit frá 13. öld var Lögberg á eystri brún Almannagjár en talið er að Lögréttu hafi verið að finna á túni þar fyrir framan, öðru hvorum megin við Öxará. Örnefni á borð við Drekkingarhyl og Gálgaklett varpa ljósi á dapurlegri hliðar málanna sem afgreidd voru Alþingi.

Þingvellir eru stærsti og mikilvægasti þingstaðurinn í Norður-Evrópu, bæði í sögulegum og fornleifafræðilegum skilningi. Ýmsar rústir eru þar sýnilegar en auk þess er unnið að forleifauppgreftri þar sem varpa munu nýju ljósi á staðinn og þróun hans en slíkar upplýsingar er hæpið að nálgast megi á nokkrum öðrum stað. 

Árið 1930 voru Þingvellir gerðir að þjóðgarði og lög voru samþykkt sem lýsa Þingvöllum sem „friðaðri þjóðargersemi öllum Íslendingum til handa, varanlegri eign íslensku þjóðarinnar undir verndarvæng Alþingis sem aldrei mætti selja eða veðsetja“. Árið 2004 hlaut menningararfleifð staðarins viðurkenningu þegar hann komst á heimsminjaskrá UNESCO.

Héraðsþing

Delegates ride to the Althing © Frank Bradford Delegates ride to the Althing © Frank BradfordZoom Alþingi á Þingvöllum spratt upp úr réttarfarsneti sem samanstóð af minni héraðsþingum. Fyrstu héraðsþingin voru sett á laggirnar að Þórsnesi (á Snæfellsnesi) og Kjalarnesi árið 900. Sennilega hafa önnur þing jafnframt verið haldin þó svo að þeirra sé ekki getið í sögulegum heimildum. Nærri árinu 965 var landinu skipt í landsfjórðunga. Í hverjum landsfjórðungi voru þrjú héraðsþing, að undanskildum Norðlendingafjórðungi þar sem þau voru fjögur. Alls voru þingin því þrettán.

Eftir að Alþingi var stofnað festust héraðsþing að vori í sessi. Þau skiptust í tvo hluta, sóknarþing og skuldaþing, og stóðu yfir í allt að viku í maí þar sem greitt var úr skuldum og ágreiningsmálum. Miðsumars- eða haustþing voru gjarnan haldin þegar menn voru á heimleið frá Alþingi í lok júlí eða í ágúst og stóðu yfir í einn til tvo daga. Þar voru lög Alþingis kunngjörð og rædd en ekki var dæmt í neinum málum þar.

Þingvellir í Íslendingasögunum

Stories about the Althing feature in many of the Icelandic Sagas, passed down by generations of storytellers © Frank Bradford Stories about the Althing feature in many of the Icelandic Sagas, passed down by generations of storytellers © Frank BradfordZoom             Einn daginn fóru allir að Lögbergi. Var svo skipað að höfðingjum að: Ásgrímur Elliða-Grímsson og Gissur hvíti, Guðmundur hinn ríki og Snorri goði voru uppi hjá Lögbergi en Austfirðingarnir stóðu niðri fyrir. Mörður Valgarðsson stóð hjá Gissuri hvíta mági sínum.

      Mörður var allra manna málsnjallastur. Gissur mælti þá að hann skyldi lýsa vígsökinni og bað hann mæla svo hátt að vel mætti heyrast.

Mörður nefndi sér votta. “Nefni eg í það vætti,” segir hann, “að eg lýsi
lögmætu frumhlaupi á hönd Flosa Þórðarsyni er hann hljóp til Helga Njálssonar á þeim vettvangi (vættvangr) er Flosi Þórðarson hljóp til Helga Njálssonar og veitti honum holundarsár eða heilundarsár eða mergundarsár það er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Tel eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Tel eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsi eg vígsök þessi til fjórðungsdóms þess er sökin á í að koma að lögum. Lýsi eg löglýsing. Lýsi eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsi eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsi eg handseldri sök Þorgeirs Þórissonar.”

      Að Lögbergi var ger mikill rómur að því að honum mæltist vel og skörulega.

Brennu-Njáls saga

Samkomur á Alþingi skipa stóran sess í mörgum af Íslendingasögunum. Tilvitnunin hér að framan er aðeins ein margra í Brennu-Njáls sögu þar sem lýst er atburðum á Alþingi. Í Laxdælu og Eyrbyggju er að finna frásagnir af atburðunum sem leiddu til kristnitöku á Alþingi og í Grettis sögu er sagt frá Þorbirni öngli sem ætlaði sér að færa höfuð Grettis sterka til Þingvalla en féllst á að dysja það á leiðinni til að forðast frekari reiði óvina sinna. 

NÁLÆGIR STAÐIR

Þjóðgarðurinn að Þingvöllum er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og þangað koma þúsundir ferðamanna í viku hverri. Hann er hluti af hinum þekkta „gullna þríhyrningi“ - 300 km hringleið sem leiðir fólk að mörgum helstu kennileitum landsins. Auk þess að hafa hýst Alþingi býður svæðið upp á stórkostlegt landslag, fyrsta flokks köfunarstað og ljómandi góða aðstöðu til silungsveiði.

Uppsveitir Árnessýslu eru vinsælasta ferðamannasvæði landsins en þar er að finna ýmsar náttúruperlur svo og sögulega staði. Þar leynast víða hverir auk þess sem margar af mikilvægustu söguslóðum landsins er þar að finna.

Hverasvæðið í Haukadal
Geysir í Haukadal er vafalítið þekktasti hver heims. Þegar Geysir var upp á sitt besta gaus hann sjóðheitu vatni upp í 60 til 80 metra hæð. Á svæðinu er að finna marga aðra goshveri en virkastur þeirra er Strokkur sem gýs á tveggja til þriggja mínútna fresti.

Gullfoss
Hinn ægifagri Gullfoss skiptist í rauninni í tvo fossa en sá efri er 11 metrar á hæð og sá neðri fellur niður 21 metra.

Skálholt
Þetta fornfræga höfðingja- og biskupssetur á rætur að rekja aftur til ársins 1056. Öldum saman var skólinn á staðnum, Skálholtsskóli, fremsta menntastofnun landsins. Skálholt naut algerrar sérstöðu hvað snerti bækur og handrit á miðöldum á Íslandi því þar voru ritaðar og varðveittar ýmsar þær bækur, svo og handrit, sem enn fyrirfinnast á bókasöfunum.

Þjórsársdalur
Á Þjóðveldisöld var Þjórsárdalur grasi gróin og frjósöm sveit með einum tuttugu býlum en árið 1104 lagðist dalurinn í eyði af völdum eldgoss í Heklu. Bæirnir sem grófust undir ösku hafa reynst sannkallaður hvalreki fyrir fornleifafræðinga.  Minnst 40 byggingar hafa verið grafnar úr ösku til þessa en best varðveitt allra þeirra er bærinn að Stöng. Í tilefni af 1100 ára afmæli byggðar á Íslandi árið 1974 var bærinn endurgerður. (www.thjodveldisbaer.is)

Langjökull
Næststærsti jökull landsins sést greinilega frá Gullfossi og auðvelt er að komast upp á hann á fjallajeppum og vélsleðum.

Kafað í Silfru
Hægt er að stunda köfun í hjarta Þingvalla. Silfra er einn ákjósanlegasti köfunarstaðurinn á Íslandi og margir gestir telja gjána jafnast á við bestu köfunarstaði heims. Vatnið í Silfru er eins tært og hugsast getur og kafarar geta fengið sér vatnssopa í kafi. Ástæður þess að vatnið er svo tært: Vatnið er kalt (2 til 4 gráður allt árið) því um er að ræða bræðsluvatn úr jökli í 50 km fjarlægð sem runnið hefur í gegnum hraunbreiðurnar svo árum skiptir áður en það rennur út um neðanjarðarhella við nyrðri enda Þingvallavatns. Margir bjóða upp á köfunarleiðangra í Silfru en upplýsingar um þá er að finna á Netinu.

Reykjavík
Þingvellir eru í einungis 45 km fjarlægð frá höfuðborginni okkar, Reykjavík. Þar er ótalmargt skemmtilegt að sjá og kanna hvort heldur sem eru söfn og listsýningar, fjölmargar verslanir og kaffihús ellegar líflegt næturlíf, áhugaverður arkitektúr svo og ýmiss konar útivist. (www.visitreykjavik.is)

UPPLÝSINGAR FYRIR FERÐAMENN

Opið allt árið. Aðgangur ókeypis.

STAÐSETNING

HAFA SAMBAND

Þjóðgarðurinn Þingvellir
801 Selfoss
Sími: 00 354 482 2660
Fax 00 354 482 3635
Tölvupóstur: thingvellir@thingvellir.is

UPPRUNI/SKÝRING Á HEITINU

Fornnorræna Þingvöllr: Þingstaður

FJÁRMÖGNUN VERKEFNIS