» Skip to content

Gulaþing í Noregi

Þúsaldargarðurinn Gulaþing var opnaður árið 2005 til að minnast þess að þar hefði verið starfrækt þing til forna með árlegum þingfundum í Gulen frá árinu 900 til ársins 1300. Í garðinum er að finna minnisvarða eftir myndhöggvarann Bard Breivik.

Gulaþing var eitt elsta og stærsta þingið í Noregi en álitið er að Haraldur hárfagri hafði sett það á laggirnar í Gulen (á árunum 872-932). Þangað komu bændur til að ná tali af konungi sínum, ræða stjórnmál, ákvarða lög og dæma í málum. 

Fyrst í stað var um að ræða alþingi, þ.e. samkomu „allra frjálsra, vopnbærra manna“. Síðar meir, þegar framkvæmdasvið þingsins hafði aukist til muna, breyttist þingið í lögþing eða fylkisþing. Öll fylkin sendu fulltrúa á þingið, ekki ólíkt því sem tíðkast enn þann dag í dag.

Elsti þingstaðurinn var að öllum líkindum í smábænum Eyvindarvík, í grennd við einu miðaldarkirkjuna sem vitað er um í Gulen. Talið er að tveir steinkrossar frá því í árdaga kristninnar marki staðinn þar sem þingið var haldið. Við Eyvindarvík er einnig góð skipavík og þorpið stendur við siglingaleiðina með fram ströndinni.

The Rantzau book – Gulating law code The Rantzau book – Gulating law codeZoom Hákon konungur Hákonarson er sagður hafa flutt þingið til Guleyjar en um er að ræða stað rétt fyrir utan bæinn Flóahlíð þar sem þúsaldargarðinn er . Í kringum 1300 var þingið svo flutt til Bergen þar sem áfrýjunarrétturinn Gulaþing er til húsa. Gulaþingslögin eru talin vera elsta lagasafn Norðurlanda. Gamalt handrit, sem gengur undir heitinu Rantzau-bók, er varðveitt í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn.

Árið 930 er sagt að Úlfljótur hafi notað Gulaþingslögin sem fyrirmynd að lögum Alþingis Íslendinga. Seinna meir, eða árið 1274, sameinaði Magnús lagabætir löggjöf allra fjögurra fylkisþinganna, Gulaþings, Frostaþings, Eiðsivaþings og Borgarþings, í eitt lagasafn, svonefnd Landslög. Hluta úr þessari löggjöf, þar með úr Gulaþingslögunum, er enn að finna í löggjöf Norðmanna.

Lagaskrá Gulaþings

Lagaskrá Gulaþings hefur að geyma 320 lagagreinar sem skiptast í 14 meginþætti. Auk þeirra eru nokkrar ótölusettar viðbætur. Lögin ná yfir trúarbrögð (kristni), samninga (sölu og leigu lands), eignarrétt (eignir), landeignarrétt, hjúskaparlög, erfðarétt og málsvörn vegna sakamála. Allverulegur hluti laganna náði yfir strandvarnir.

Lögin voru byggð á reynslu manna og lýstu sem slík tilteknum atburðum og tilgreindu hvaða refsiaðgerðum bæri að beita í slíkum málum. Í mörgum tilvikum er ekki ljóst hvort lögunum hafi borið að fylgja nákvæmlega eða hvort þau hafi verið notuð til að lýsa almennari reglu. Sem dæmi mætti nefna lög er snerta réttinn yfir hvölum sem rekið hefur á land en samkvæmt lögunum á konungurinn rétt á helmingi alls hvalreka. Þetta gæti átt við um hvali eingöngu eða þá sagt til um réttinn yfir hverju því sem rekur á land.

Lagaskráin er samsett úr lögum og lagahefð sem mótast hefur á löngum tíma. Vitað er að Gulaþingslögin byggjast á mörgum ólíkum lagahefðum, meðal annars á boðorðunum tíu sem Móse fékk á Sínaífjalli. Ensk lög höfðu að sama skapi mikil áhrif á lagaskrána fyrir milligöngu Hákons góða sem fóstraður var af Aðalsteini konungi á Englandi og sneri aftur til Noregs og stóð þar fyrir ýmsum endurbótum á þinginu. Ensku áhrifin sjást greinilega á fagurlega skreyttum síðunum í Rantzau-bók. Sumir bókstafirnir hafa verið skreyttir með grænu bleki en þann lit notuðu einkum enskir skjalaritarar, andstætt við bláa og rauða litinn sem tíðkaðist að nota í skjölum frá Noregi og öllum norrænu ríkjunum á þessum tíma. Gulaþings- lagaskráin átti svo einnig eftir að vera í lykilhlutverki við stofnun Alþingis Íslendinga á Þingvöllum.

Landshlutaþing í Sogni og Fjörðunum

Í Gulaþingslögum eru nefnd tvö þingstig sem heyrðu undir Gulaþing, þ.e. fylkisþingi og fjórðungsþing (í hverju fylkisþingi voru fjögur fjórðungsþing). Þing þessi voru opin öllum frjálsum mönnum þó svo að ekki séu til neinar ritaðar heimildir um starfsemi þeirra. Héraðsþingin gegndu ólíkum hlutverkum og heitum, á borð við vopnaþing, manntalsþing, konungsþing og skipreiðuþing. Svo virðist sem haldið hafi verið sérstakt vorþing en einnig mátti boða til þings með fimm nátta fyrirvara ef einhver sá til þess þörf. Haustþing voru einnig þekkt.

Líklegt þykir að héraðsþingin hafi ávallt verið haldin á sama stað þó svo að aðrir staðir hafi verið valdir fyrir tiltekin mál, svo sem morð, ellegar á tilteknum stöðum þar sem upp komu þrætur um vegna leigu. Staðsetning margra þessara þinghalda er enn óþekkt. Í Sogni og Fjörðunum er að finna minnst 40 örnefni sem fela í sér orðið þing og þau kunna að hafa orðið til á löngu tímabili. Örnefnið Þinghaugur er þó nokkuð algengt og gefur til kynna þinghald utandyra. Á milli 1500 og 1600 var þinghald svo flutt inn í hús og frá þessu tímabili þekkist örnefnið Þingstofa. 

Reed í hreppnum Breim í Norðurfirði er dæmi um héraðsþingstað sem notaður var lengi. Þar er að finna náttúrulegan haug sem kallast Þingshaugur og allt til ársins 1800 var þar einnig að finna Þingstofu. Bátahúsið í grenndinni gekk undir heitinu Tíundarhúsið en þar fór skattinnheimta fram.

NÁLÆGIR STAÐIR

Eyvindarvík
Þúsaldargarðurinn Gulaþing er í aðeins 2 km farlægð frá miðbæ Eyvindarvíkur. Þaðan er hægt að taka hraðbát til Bergen. Þá er einnig hægt að gista á hóteli bæjarins (www.eivindvik-fjordhotell.no) og ferðast um svæðið. Einnig er skemmtilegt að skoða gömlu kirkjuna í Eyvindarvík, stunda stangveiði eða róa á bát á Prestasundi. Á svæðinu er að finna góða göngustíga sem bjóða upp á gönguferðir við allra hæfi.

Köfun við Gulen
Bestu köfunarskilyrðin í Noregi eru einmitt þarna við munnann á Sognafirði. Þar er boðið upp á námskeið á öllum stigum og kafarar geta barið augum stórkostlegt sjávarlíf svo og ógrynnin öll af skipsflökum. (www.gulendykkesenter.no)

Fjarðaströndin
Strandlengjan í Sogni og Fjörðunum nær alla leið frá Gulen í Sognafirði í suðri til Bremanger í Norðurfirði í norðri, með margbrotnu landslagi og fjölbreyttu dýralífi þar sem sögulegir atburðir hafa átt sér stað og bíða þess að vera sagðir. Hægt er að ferðast milli eyjanna, þjóta á brimbretti á öldum Norðursjávarins eða sigla á hraðbát í briminu (fjordguiding.com). Þá er einnig hægt að fara í fjallgöngur í grenndinni, finna góðan veiðistað á ströndinni ellegar einfaldlega slaka á. Hverjar sem óskirnar eru þá höfum við örugglega lausnina.

Sognafjörður
Lengsti og dýpsti fjörður Noregs, Sognafjörður, er í miðju fjarðasvæði Noregs og teygir sig 200 km inn í land í átt að þjóðgörðunum í Jötunheimum og Joste-dals breiðu. Þjóðgarðurinn í Jötunheimum einkennist af háum fjöllum, jöklum og djúpum vötnum og hentar afar vel fyrir gönguferðir, fjallgöngur og skíðaiðkun. Joste-dals jökullinn nær yfir hartnær helminginn af þjóðgarðinum í Joste-dals breiðu og er stærsti jökullinn á meginlandi Evrópu. Í Sognafirði erumörg einstök söfn, listaverkasalir, fornfrægir staðir svo og stafkirkjur. Urne- stafkirkjan í Luster er á heimsminjaskrá UNESCO.

Myllusteinsvinnslan í Hyllestad In Kvernsteinsparken (Millstone Park), Hyllestad © Frank Bradford In Kvernsteinsparken (Millstone Park), Hyllestad © Frank BradfordZoom
Farið var að stunda námugröft í smáum stíl kringum árið 700 en undir lok víkingaaldar hafði framleiðslan aukist til muna en afurðirnar voru sendar út um gjörvalla Evrópu þegar framleiðslan stóð sem hæst. Víða má sjá ummerki um þennan forna iðnað á svæðinu þar sem við blasa eyður eftir grjót sem hefur verið fjarlægt og víða má enn sjá grjót liggjandi á víð og dreif þar sem það eitt sinn var höggvið. 

Skólabörn á svæðinu læra handbragð víkingaaldarinnar og gegna hlutverki leiðsögumanna fyrir gesti en um er að ræða verkefni sem miðar að því að breiða út kunnáttuna um myllusteinsvinnsluna í gegnum þátttöku og reynslu. Í lok hverrar skoðunarferðar er hægt að sjá börnin að störfum og fá að bragða á víkingamat sem matreiddur er yfir báli. (www.kvernstein.no)

UPPLÝSINGAR FYRIR FERÐAMENN

Þúsaldargarðurinn Gulaþing er opinn allt árið.

Hægt er að fara í skoðunarferðir í Þúsaldargarðinn og Eyvindarvík.

Bókið ferðir í síma 00 47 57 7820 06 eða með tölvupósti gulatinget@gulen.kommune.no

 

Einnig er hægt að komast í bátsferðir frá Bergen, sjá nánari upplýsingar á:www.fjordkysten.no

Netfang stiftinga@jensbua.no 

Sími: 00 47 57 73 90 20

STAÐSETNING

HAFA SAMBAND

Gulen kommune,
5966 Eivindvik 
Tel: 00 47 57782006 
Fax: 00 47 57782099
Email: gulatinget@gulen.kommune.no

UPPRUNI/SKÝRING Á HEITINU

Fornnorræna orðið Gulaþing: Þing, þar sem hvass vindur blæs

NIÐURHAL

FJÁRMÖGNUN VERKEFNIS