» Skip to content

Þinganes í Færeyjum

Þinganes er lítið, grýtt nes sem gengur út í víkina sem Þórshöfn stendur við en þar er talið að færeyska þingið hafi verið haldið í rúmlega þúsund ár.

Fyrst í stað var þingið að Þinganesi almenn samkoma, eða Alþingi, sem allir frjálsir Færeyingar gátu sótt til að rökræða og taka ákvarðanir um sameiginleg málefni. Síðar meir breyttist þingið í Lögþing og forseti þess var lögmaður. Þingið sátu fulltrúar allra héraða landsins.

Þingið kom saman einu sinni á ári yfir sumartímann og tengdist framan af Ólafsvökunni sem hefst þann 29 júlí. Þingið var lengi vel haldið úti við á sjálfu nesinu en var seinna flutt inn í eina af litlu byggingunum á Þinganesi.

Allt frá árinu 1274 starfaði Lögþingið í samræmi við norsk lög sem Magnús lagabætir tók saman auk þess að byggja á sérfæreyskum lögum, svo sem þeim sem koma fyrir í Sauðabréfinu frá 1298.

Þegar nær dró lokum 18. aldar hafði Lögþingið misst töluverð völd og fulltrúar konungs orðið valdameiri. Í kringum 1816 var þingið svo lagt niður og Færeyjar urðu dönsk sýsla sem laut stjórn danskra yfirvalda og danskra embættismanna. Þingið var svo endurreist árið 1852 og hafa áhrif þess aukist stöðugt síðan.

Skrifstofur færeyska lögmannsins eru nú til húsa í byggingu á Þinganesi.   Þar á svæðinu eru nokkur elstu hús Þórshafnar og eru sum þeirra frá 14. öld en önnur frá 17. og 18. öld og eru notuð enn þann dag í dag. Víða er að finna ristur í klöppunum í flæðarmálinu. Getgátur eru um að sumar risturnar tengist atburðum sem áttu sér stað á þinginu.

Héraðsþingstaðir

Auk þess sem þingað var árlega í Þórshöfn að sumri skiptust Færeyjar enn fremur í sex þinghéruð: Suðurey, Sandey, Vogaey, Straumey, Austurey og Norðureyjar. Þingfundirnir voru haldnir á vorin en einnig er til frásögn um haustþing. Fundarstaðirnir fela oft í sér orðið þing eða dóm, til dæmis Þinghellan og Dómheyggjar.

Héraðsþingunum má líkja við neðri dómsstig og málum var skotið þaðan til Lögþingsins en slíkt var þó alls ekki ætíð gert og margir dómar, meðal annars líkamsrefsingar og dauðadómar, voru kvaddir upp á héraðsþingunum og þeim framfylgt þar. Fyrir vikið var að finna aftökustaði á flestum héraðsþingstöðunum.

Í sumum þorpum voru héraðsþingin haldin innandyra en ef marka má munnmælasögur áttu þingin sér einnig stað fjarri mannabyggðum þar sem talið er að þingin hafi verið til forna. Í fjórum héruðum eru til skírskotanir um þing fjarri byggð en allir staðirnir eru þó við alfaraleið á milli þorpa. Á Suðurey og Norðureyjum voru þingin haldin uppi til fjalla en á Suðurey, svo og Austurey, voru þau haldin á láglendinu. Líkt og með Lögþingið í Færeyjum, sem staðsett er í miðju landinu, var þessa fornu þingstaði að finna í miðju héraðinu þar sem best tenging var við þorpin í grenndinni. Þegar þingin fluttu svo inn í byggð varð næsta þorp oftast fyrir valinu.

Örnefni sem fela í sér gálga er að finna í fjórum þinghéruðum og í öllum tilvikum á örnefnið við um þing frá sögulegum tíma umfram hina fornu þingstaði. Gálgunum var yfirleitt komið fyrir á hæðum þar sem þeir sáust víða að. Brýnt þótti að sem flestir gætu með eigin augum orðið vitni að því hvernig fór fyrir afbrotamönnum.

Ørðavík on Suðuroy © Arne Thorsteinsson Ørðavík on Suðuroy © Arne ThorsteinssonZoom Suðurey
Þingið í Suðurey var haldið í þorpi sem kallast Öravík á miðri eynni en til forna hafði það verið háð í fjöllunum fyrir ofan þorpið. Meðlimir þingsins eru sagðir hafa reist tjöld sín í Tjaldavík rétt fyrir sunnan þorpið.

Sandey
Undir Sandeyjarþingið heyrðu eyjarnar Sandey, Skúfey og Dímon. Þingið hélt fundi sína á bænum Tröðum í þorpi sem nefnist Heima á sandi. Þar er enn að finna steinhellu sem orðið Tingborði (þingborð) hefur verið greypt í. Forni þingstaðurinn er sagður hafa staðið aðeins austar við Millum vatna, þ.e. svæðið á milli tveggja stöðuvatna.

Vogey
Sögufrægi þingstaðurinn var að Rygsgarði í þorpi sem kallast Miðvogur. Á Giljanesi, miðja vegu á milli þorpanna Miðvogs og Sandvogs, er að finna bjarg sem kallast Gálgasteinn sem gefur til kynna að þar hafi eitt sinn verið gálgi.

Tingborði (the Thing Table) on the farm í Trøðum in Sandoy © Frank Bradford Tingborði (the Thing Table) on the farm í Trøðum in Sandoy © Frank BradfordZoom Straumey

Sennilega er um að ræða það þing sem hvað flestir íbúar heyrðu undir en undir Straumeyjarþing heyrðu Straumey, Nólsey, Hestur og Koltur. Þingstaðurinn var í þorpi sem kallast Kollafjörður en eitt húsanna í þorpinu ber einmitt heitið Í þinggarðinum. Skammt frá sjálfu þorpinu var að finna gálga og samkvæmt munnmælasögum áttu þeir dauðadæmdu að geta bjargað lífi sínu ef þeir komust á tiltekinn stað sem getið var um.

Austurey
Þingið í Austurey var haldið í þorpi sem nefndist Selatröð. Hugsast getur að þingið hafi verið háð við stórt bjarg sem kallast Þingsteinn þótt líklegra sé að það hafi verið haldið innan dyra. Niðri við sjóinn er að finna stað sem kallaður er Á gálga. Þess er getið í sögulegum heimildum að þjófur einn hafi verið hengdur í Selatrað árið 1626. Forni þingstaðurinn er álitinn hafa verið spölkorn þar frá þar sem heitir Stevnuváli.

Norðureyar
Þingið í þorpinu í Vági, sem síðar meir átti eftir að verða borgin Klakksvík, var samheiti yfir nyrðri eyjarnar Borðey, Karlsey og Konuey en í austri voru Viðey, Svíney og Fugley. Forni þingstaðurinn í fjöllunum norður af Klakksvík er eins nálægt miðju þinghéraðinu og hugsast getur. Þar er að finna stórt bjarg sem gengur undir heitinu Þingsteinn en umhverfis bjargið hafa verið reistir nokkrir minni steinar. 

NÁLÆGIR STAÐIR

Þórshöfn

Nordic House, Tórshavn © Frank Bradford Nordic House, Tórshavn © Frank BradfordZoom Þórshöfn iðar öll af lífi en þar er að finna hótel, veitingastaði, kaffihús, bari og bókasafn en á öllum þessum stöðum er þráðlaust net auk þess sem þar eru mörg söfn, íþróttaaðstaða, almenningsgarðar, áhugaverðar gönguleiðir og verslanir sem bjóða upp á allt mögulegt. Á upplýsingamiðstöðinni, Kunningarstova, í miðborginni fást alls kyns upplýsingar, kort, leiðabækur, bæklingar og minjagripir. (www.visittorshavn.fo) Borgin býður upp á blöndu af gömlum og nútímalegum byggingum. Í norðurhlutanum er til dæmis Norræna húsið sem er til vitnis um nútímabyggingarlist eins og hún gerist best en þar eru ýmsir listviðburðir haldnir.

Gamli  bærinn

Gamli bærinn teygir sig allt frá odda Þinganess inn í miðbæinn í Þórshöfn þar sem færeyska þingið og borgarstjórnin eru til húsa. Fróðlegt er að kynnast gamla bænum með því að ganga í gegnum þúsund ára sögu hans, allt frá þingstaðnum þar sem Færeyingar þinguðu frá því seint á 9. öld, fram hjá gömlu vöruhúsunum sem notuð voru á tímum einokunarverslunarinnar, áfram eftir þröngum, kræklóttum stígum með svörtum, tjörguðum húsum með hvítum gluggum og torfþökum, í átt að Lögþingshúsinu (færeyska þinginu) sem reist var þúsund árum síðar, árið 1856.

Virkið Skansinn 

Fyrsta virkið við Skansinn reisti færeyska hetjan Magnus Heinason árið 1580. Tvö önnur virki voru reist á Þinganesi til að verja verslunina gegn árásum frá hafi og landi. Þessi tvö virki entust ekki lengi og í stað þess sem stóð á odda Þinganess var reist vöruhús árið 1740 og því var svo síðar breytt í heimili. Sú bygging, svo og nærliggjandi hús, hefur tilheyrt færeyska ríkinu frá árinu 1957 og hýsir færeysku ríkisstjórnina og skrifstofur lögmannsins.

Kirkjubær

St Magnus Cathedral and modern parish church, Kirkjubøur © Frank Bradford St Magnus Cathedral and modern parish church, Kirkjubøur © Frank BradfordZoom Þorpið  Kirkjubær er einn vinsælasti ferðamannastaðurinn í Færeyjum. Á miðöldum var Kirkjubær helsti kirkjustaðurinn og jafnframt menningarleg miðstöð Færeyja. Þar hafði biskupinn aðsetur allt fram að siðabótunum á miðri 16. öld er færeyski biskupsstóllinn var lagður niður. Rústirnar eftir 14. aldar dómkirkjuna, kirkju heilags Magnúsar, og sóknarkirkja Ólafs helga, sem er eilítið eldri, svo og Reykstofan með torfþaki sínu, eru álitnar vera meðal markverðustu minnisvarðanna um færeyska menningu. Reykstofan er 700 ára gamall sveitabær í næsta nágrenni við biskupssetrið en þar ól sama fjölskyldan manninn í 17 kynslóðir. Sóknarkirkjan og lítið safn eru opin daglega yfir sumarmánuðina og eftir samkomulagi á veturna. (Rútuferðir með leiðsögn: www.tora.fo)

Fuglabjörgin í Vestmanna

Allir ferðamenn verða að virða fyrir sér fuglabjörgin í Vestmanna. Á sumrin eru daglegar ferðir þangað ef veður leyfir.

Mykines

Því ekki að heimsækja afskekktu eyna Mykines, sælustað allra fuglaáhugamanna. Þarna var eitt sinn þéttbýl, blómleg byggð en nú búa þar aðeins örfáir allt árið um kring. Á sumrin flokkast hins vegar til eyjarinnar bæði farfuglar og ferðamenn. Náttúran er stórbrotin og ferðamenn þurfa að krækja fyrir lunda í hreiðurgerð á gönguferð sinni út að vestasta vitanum. Í þessum stórfenglegu klettum er að finna eina súluvarpið í Færeyjum. 

Hægt er að sigla til Mykiness í litlum báti frá Sørvági ellegar fljúga þangað í þyrlu frá flugvellinum. Mykines er vestasta eyja Færeyja og snöggar veðrabreytingar svo og úfinn sjór geta stundum tafið fyrir ferðalögum. Á eynni er að finna lítið gistiheimili, kaffihús og snyrtiaðstöðu.

UPPLÝSINGAR FYRIR FERÐAMENN

Sækið Færeyjar heim
Í Færeyjum er stórbrotið landslag, ósnortin náttúra og fjölbreytt dýralíf sem laðar að ferðamenn frá öllum heimshornum. Hægt er að komast í návígi við lunda, súlur og stormsvölur svo og upprunalegar kindurnar og smáhestana. Ferðamenn upplifa friðsælt og kyrrlát líf eyjanna og drekka í sig menningu þeirra og sögu. 

Í Færeyjum eru víða aflíðandi strendur austan megin en himinháir klettar rísa beint upp úr sjónum vestan megin. Landslagið er stórfenglegt, grænar aflíðandi fjallshlíðar með stórskornum snösum hingað og þangað en um er að ræða þykk lög af stuðlabergi sem myndaðist í eldsumbrotum fyrir einum 60 milljónum ára. Öll hafa héruðin sín einstöku sérkenni, allt frá nyrsta odda Ennisbergs til vitans í Akrabergi í suðri. 

Gönguferð um Færeyjar er tilvalin leið til að kynnast eyjunum vel. Þær eru litlar og hæsti fjallstindurinn, Slættaratindur, er aðeins 882 metrar á hæð. Landsvæðið er mjög úfið og gangan getur orðið talsverð áskorun. Þá er einnig hægt að renna fyrir lax eða silung eða þá reyna fyrir sér í sjóstangveiði. Fyrir þá sem vilja reyna meira á sig væri tilvalið að fara í brimbrettasiglingu eða róa á kajak.

Menning og saga
Færeyska er norrænt tungumál og á eyjunum er löng hefð fyrir vísnasöng og vísum sem borist hafa mann fram af manni. Færeyskir dansar eru einstakt fyrirbæri í menningu Færeyinga en um er að ræða hringdans sem dansaður er jafnframt því sem sungnar eru vísur um konunga og hetjur en sumar vísurnar geta verið nokkur hundruð erindi! Enginn listunnandi ætti að láta Listasafn Færeyja fram hjá sér fara en þar er einnig boðið upp á ýmis orlofsnámskeið fyrir þá sem hafa áhuga á teikningu, listmálun eða ljósmyndun.

Þjóðhátíðardagur Færeyinga er 29. júlí sem er dánardagur Ólafs Haraldssonar. Þá er einnig mikið um hátíðarhöld í Þórshöfn, höfuðborg Færeyinga, við upphafs hvers þings. Haldnar eru hátíðir og skemmtanir á nánast hverri einustu eyju og í mörgum þorpum er haldin róðrarkeppni en sú íþrótt nýtur mikilla vinsælda. Í júlí er haldin tónlistarhátíð í Götu sem nefnist G! Festival en þar koma bæði fram færeyskir tónlistarmenn og þekktir erlendir listamenn.

Ferðir um Færeyjar
Hægt er að komast frá Þórshöfn til flestra staða landsins dag hvern og heim að kvöldi. Á helstu stöðum eru tíðar ferðir með rútum og ferjum en sjaldnar á minni eyjum og afskekktum stöðum.   Öflugt vega- og jarðgangakerfi tengir þorpin auk þess sem neðansjávargöng og brýr tengja helstu eyjarnar.

Þá er einnig í boði ódýr þyrluþjónusta þrjá daga vikunnar að vetri til og fjóra daga í viku á sumrin en heimamenn njóta forgangs og ekki er unnt að bóka miða báðar leiðir.

Áætlun fyrir rútur, ferjur og þyrlur: www.ssl.fo, þyrluáætlun: sjá einnig www.atlanticairways.fo

Ferðir til Færeyja
Hægt er að ferðast til Færeyja með ýmsu móti. Norræna er með vikulegar ferðir þar sem siglt er á milli Hirtshals í Danmörku, Þórshafnar í Færeyjum og Seyðisfjarðar á Íslandi. Ferðunum fjölgar svo yfir sumarmánuðina. (www.smyril-line.com)

Atlantic Airways fljúga samkvæmt vetrar- og sumaráætlun en á veturna eru tvær ferðir á dag til Kaupmannahafnar auk þess sem flogið er tvisvar í viku til Billund á Jótlandi og til Reykjavíkur. Ferðunum fjölgar síðan yfir sumarmánuðina en þá er boðið aukalega upp á tvær ferðir í viku til Álaborgar í Danmörku, Bergen í Noregi og til Stansted-flugvallar í London. ( www.atlanticairways.fo)

STAÐSETNING

HAFA SAMBAND

Kunningarstovan í Tórshavn
Á Vaglinum
P.O.Box 379 - 110
Tórshavn
sími  00 298 30 24 25
fax  00 298 31 68 31
torsinfo@torshavn.fo

Visit Faroe Islands
Bryggjubakki
P.O. Box 118
FO-110 Tórshavn
info@visitfaroeislands.com

UPPRUNI/SKÝRING Á HEITINU

Fornnorræna Þinganes: Nesið sem þingið stóð á

FJÁRMÖGNUN VERKEFNIS