» Skip to content

Tingwall á Hjaltlandi

Þing Hjaltlendinga var haldið í litlum hólma sem kallast Tingaholm, nærri norðurenda vatnsins Tingwall Loch og þar fór það fram langt fram á 16. öld.

Tingwall Kirk © Davy Cooper Tingwall Kirk © Davy CooperZoom Til eru heimildir um samkomur í Tingwall frá og með árinu 1307 en eina skírskotunin um þingfund í hólmanum á rætur að rekja til bréfs frá árinu 1532. Talið er að embættismennirnir hafi setið umhverfis steinborð í hólmanum en að fulltrúarnir hafi safnast saman í brekkunni fyrir neðan kirkjuna. Í slæmu veðri er líklegt að fundað hafi verið í kirkjunni.

Tingaholm var eitt sinn smáeyja, umkringd vatni, og þangað var unnt að komast á vaði. Upp úr 1850 lækkaði vatnsyfirborðið með þeim afleiðingum að eyjan varð landföst. Í kringum 1774 höfðu steinasætin verið fjarlægð til að stækka beitilandið í hólmanum en leifar eftir vaðið eru enn sýnilegar.

Rétt upp úr 1570 lét jarl að nafni Robert Stewart færa þingið til Scalloway en þó er vitað að þingstaðurinn hafi verið notaður einu sinni enn árið 1577 þegar ríflega 700 Hjaltlendingar söfnuðust saman þar til að kvarta yfir fógetanum á staðnum, Lawrence Bruce, við umboðsmenn konungsins í Edinborg.

Héraðsþing Hjaltlendinga

Þegar hreppaheitin á Hjaltlandi eru skoðuð má sjá að mjög mörg þeirra fela í sér orðið þing. Öll bera heitin vott um að haldin hafi verið héraðsþing á þessum stöðum áður fyrr.

This site in Dale, Delting is believed locally to be the site of the Dale thing © Frank Bradford This site in Dale, Delting is believed locally to be the site of the Dale thing © Frank BradfordZoom Flest heitanna eru þorpsheiti, t.d. mætti nefna Aith, í Aithsting, Dale í Delting, Sand í Sandsting og Lunna í Lunnasting. Sumir þessara staða voru kirkjustaðir og hugsanlega hafa ráðamenn jafnframt verið búsettir þar á miðöldum.

Önnur heiti sem orðið þing kemur fyrir í eru til í gömlum ritum en eru ekki lengur notuð. Gnípnaþing kemur fyrir í ritum frá 1510 og 1682. Heitið táknar þing á nípu (norræna orðið gnípa eða nípa) og munnmælasögur herma að um sé að ræða svæðið umhverfis þorp sem kallast Neap í norðausturhluta hreppsins Nesting. Orðið Nesting vísar jafnframt til þings en um er að ræða þingið á nesinu. Ekki er vitað fyrir víst hvaða nes á í hlut en sennilega er um að ræða hólmann sem Neap stendur á.

Þvætaþing og Rauðarþing koma bæði fyrir í ritum frá árinu 1321. Þvætaþing kann að hafa verið á Westside en á því svæði er einmitt að finna mörg örnefni sem fela í sér orðið twatt (norræna orðið þveit sem táknar graslendi á milli kletta ellegar trjáa). Fræðimaðurinn Jakob Jakobsen getur sér til um að Rauðarþing hafi verið að finna á Northmavine-svæðinu þar sem kallast . Örnefnið kemur jafnframt fyrir í North Roe, nyrsta svæði héraðsins. Leitt hefur verið getum að því nýverið að þarna kunni að hafa verið átt við þingið í Reafirth (norræna orðið Ræðarfyrðe) sem er gamalt heiti á því sem nú kallast Mid Yell.

Local folklore tells us that the thing met at this promontory in Neap, Nesting © Frank Bradford Local folklore tells us that the thing met at this promontory in Neap, Nesting © Frank BradfordZoom Þá eru einnig til heimildir um þing sem haldið var í Gardie í Mid Yell á Jónsmessu árið 1538. Sá þingfundur sannar enn frekar mikilvægi þessara héraðsþinga. Lögmaður Hjaltlands tók þátt í þessu tiltekna þingi ásamt lögréttumönnum frá Yell og Unst, tólf dómurum og fulltrúa konungs vantaði heldur ekki.

Ekki einungis þingheitin tengjast dómstólunum. Hugtakið herra vísar til þess sem virðist hafa verið eldri héraðsstjórn. Samkvæmt gamalli hefð, sem getið er um í Fetlar frá árinu 1980, var eynni eitt sinn skipt í þrjú héruð og var eitt þeirra það sem nú er þekkt sem Herra. Hvert hérað er sagt hafa yfir að ráða eigin þingi. Þá voru einnig til Herra í Yell, Lunnasting og Tingwall.

NÁLÆGIR STAÐIR

Tingwall Kirk
Auk þess sem þing Hjaltlendinga var staðsett í Tingwall hafði erkidjákninn jafnframt aðsetur þar. Kirkjan sem þar er nú var reist í kringum 1788 en álitlið er að þarna hafi staðið kirkja alls frá 12. öld. Þá er enn fremur talið að grafhvelfingin í kirkjugarðinum hafi tilheyrt þessari eldri kirkju.

Morðingjasteinn
Rétt við veginn við syðri enda stöðuvatnsins Loch of Tingwall er að finna uppreistan stein þar sem sagt er að jarlinn Henry af Orkneyjum og fylgismenn hans hafi myrt frænku jarlsins, Malise Sperra, árið 1389, sennilega í baráttu um völdin yfir Hjaltlandi.

Scalloway Castle © Davy Cooper Scalloway Castle © Davy CooperZoom Scalloway
Þorpið Scalloway er aðeins 3 km frá Tingwall. Þar er meðal annars að finna verslanir, veitingahús, gististaði og snyrtingu. 

Scalloway-kastali

Scalloway-kastali var byggður af bandingjum fyrir jarlinn Patrick Stewart árið 1599. Síðustu árin sem þingið var við lýði (það var flutt frá Tingwall rétt upp úr 1570) var það haldið í aðalsalnum í kastalanum. Síðasti þingfundurinn er talinn hafa verið haldinn 1608. Kastalinn, sem nú er þaklaus, var notaður skemur en eina öld en heyrir nú undir skoska menningarmálaráðuneytið og er opinn almenningi.

Scalloway-safn

Rétt við hliðina er að finna Scalloway-safnið. Þar eru til sýnis ýmsir stórmerkilegir munir um norsku andspyrnuhreyfinguna sem gerði þorpið að leynilegri bækistöð fyrir skipaferðir í síðari heimsstyrjöldinni.

Shetland Museum and Archives © Davy Cooper Shetland Museum and Archives © Davy CooperZoom Leirvík
Höfuðborg Hjaltlands, Leirvík, er í einungis 11 km fjarlægð frá Tingwall. Þar er að finna verslanir, gistingu, veitingastaði, pósthús, hraðbanka, matvöruverslun og ferðamannaupplýsingar

Hjaltlandssafn og skjalasafn

Hjaltlandssafnið og skjalasafnið í Leirvík veita góða innsýn í einstaka arfleifð og menningu eyjanna með ríflega 3000 safngripum, hljóðupptökum og myndum úr skjalasafninu sem leiða gestina í gegnum 6000 ára jarðfræðisögu Hjaltlands, allt frá örófi alda og fram á okkar daga.

UPPLÝSINGAR FYRIR FERÐAMENN

Sækið Hjaltland heim
Lonely Planet valdi Hjaltland sem einn besta ferðamannastað heims en á Hjaltlandi er að finna mjög fjölbreytt dýralíf, stórbrotið landslag og áhugaverða og litríka menningu. Á Hjaltlandi er unnt að finna eitthvað við allra hæfi. Saga eyjanna spannar yfir 6000 ár, þar eru alls 138 strendur og bjart í 19 tíma á sólahring yfir sumarmánuðina. 

Jarðfræði
Árið 2010 hlaut Hjaltland viðurkenningu sem heimsjarðvangur (Global Geopark) vegna einstakrar jarðfræðiarfleifðar eyjanna. Hér er að finna nánast öll jarðfræðifyrirbæri sem þekkt eru, hvort heldur sem er ævaforn sjávarbotninn eða kulnuð eldfjöll og fyrir vikið býr Hjaltland yfir einhverri þeirri fjölbreyttustu jarðsögu sem vitað er um í Evrópu. 

Mousa Broch, part of the Crucible of Iron Age Shetland © Davy Cooper Mousa Broch, part of the Crucible of Iron Age Shetland © Davy CooperZoom Fornleifafræði
Á Hjaltlandi er að finna mjög merkar fornminjar á alþjóðavísu. Unnt er að kynna sér 4000 ára sögu Jarlshofs, heimsækja best varðveitta steinaldarþorpið í Norður-Evrópu í Old Scatness og fara síðan til Mousa þar sem er að finna mjög heillegt 2000 ára gamalt steinvirki. Saga Hjaltlands er greypt í hverja hæð, allt frá forsögulegum byggingum yfir í langhús víkinganna og bíður þess að verða barin augun. 

Náttúran
Hjaltland er draumur allra dýraáhugamanna. Virðið fyrir ykkur hvalina úti fyrir ströndunum og otrana með fram strandlengjunni, skoðið sjaldséðar heimskautaplöntur eða virðið fyrir ykkur einstakt fuglalífið við sjóinn þar sem meðal annars er að finna lunda. Alls kemur ein milljón farfugla til eyjanna á ári hverju. Hjaltlandseyjar eru þekktar fyrir smáhestana sína en þá er víða hægt að koma auga á, hvort heldur sem er á beit við veginn ellegar á grösugum hæðunum. Hestarnir virðast í fljótu bragði ganga lausir en allir eru þeir þó í eigu og umsjá hjaltlenskra bænda. 

Menning
Hjaltlensk menning er áhugaverð og fjölbreytt. Hjaltland hefur löngum verið í nánum tengslum við Norðurlöndin og enn má heyra leifar af norrænni arfleifðinni í mállýskunni á eyjunum svo og örnefnum. Fáni eyjanna, sem er sambland af skoskum jafnarmakrossi og norrænum krossi, endurspeglar tengslin sem enn eru við lýði við bæði Skotland og Norðurlöndin. Eyjarnar eru þekktar fyrir mikla tónlistarhefð og fyrir hæfileikaríka tónlistarmenn sem þær hafa alið af sér. Á Hjaltlandi eru haldnar nokkrar tónlistarhátíðir allt árið um kring og nægir að nefna heimsþekktu hátíðina Shetland Folk Festival. Þá eru einnig haldnar árlegar kvikmynda- og bókahátíðir, svo og hin annálaða eldhátíð, Up Helly Aa. Hefðbundnar atvinnugreinar frá fornu fari eru akuryrkja og fiskveiðar. Þó svo að nútímatækni hafi leyst af hólmi margar eldri vinnuaðferðir er enn hægt að rekast á gamla verklagið á stöku stað. Hjaltlendingar eru einnig þekktir fyrir prjónavörurnar sínar. Prjónavörur frá Fair Isle og Shetland Fine Lace eru enn unnar samkvæmt hefðbundnum aðferðum. 

Ferðir til Hjaltlands
Einfalt er að fljúga þangað (www.flybe.com) eða sigla (www.northlinkferries.co.uk

Innanlandsflug, ferjur og rútur - www.zettrans.org.uk

STAÐSETNING

HAFA SAMBAND

Promote Shetland
Shetland Museum & Archives
Hay's Dock
Lerwick
Shetland
ZE1 0WP

Sími: 00 44 1595 989898
Netfang: info@shetland.org

UPPRUNI/SKÝRING Á HEITINU

Fornnorræna Þingvöllr: Völlur þingsins

NIÐURHAL

FJÁRMÖGNUN VERKEFNIS